Listakosning

Kjörseðill í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku þar sem notast er við listakosningu.

Listakosning er kosningaaðferð í hlutfallskosningum sem gengur út á það að stjórnmálaflokkar bjóði fram lista af frambjóðendum. Kjósandinn velur sér lista og hlutfallsleg skipting atkvæða á milli framboðslistanna ræður því hversu margir frambjóðendur af hverjum lista ná kjöri. Listakosning í einhverri mynd er notuð í fjölmörgum löndum um allan heim til að kjósa löggjafarþing og sveitarstjórnir og aðferðin er stundum einnig notuð til að kjósa stjórnir í fyrirtækjum eða félagasamtökum. Í sumum löndum (t.d. Þýskaland og Nýja-Sjáland) fer listakosning fram samhliða kosningum í einmenningskjördæmum.

Misjafnt er hversu mikil áhrif kjósendum býðst að hafa á gengi einstakra frambjóðenda á framboðslistum. Í sumum löndum (t.d. Ísrael) ráða stjórnmálaflokkar alfarið röð frambjóðenda á listunum og kjósendur hafa ekki möguleika að hafa áhrif á hana en í öðrum löndum (t.d. Sviss) geta kjósendur dreift atkvæði sínu á einstaka frambjóðendur og geta valið frambjóðendur þvert á framboðslistana. Á Íslandi er fræðilega mögulegt fyrir kjósendur að hafa áhrif á röð frambjóðenda á framboðslistum með því að breyta röðuninni sem fram kemur á kjörseðlinum eða með því að strika einstaka frambjóðendur út. Yfirleitt eru slíkar breytingar þó of fáar til að breyta röð frambjóðenda á listunum.

Úthlutun sæta til framboðslistanna getur farið eftir ýmsum reiknireglum. Algengust er D'Hondt-reglan og ýmist tilbrigði við hana en einnig eru til reglur um stærstu leifar.


From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by razib.in